Fjölbreyttar æfingabúðir Down Under
Eins og hinir fjölmörgu aðdáendur síðunnar okkar hafa eflaust tekið eftir að þá hafa blogg-skrif legið niðri sl. tvær vikur. Ástæðan er einfaldlega sú að yfirþjálfari garpahópsins var búinn að plana svo gífurlega strangt prógramm yfir æfingabúðir Harðar í Ástralíu að ekki vannst tími til að blogga. Nú verður reynt að bæta fyrir það.
Herði tókst nú loks að komast til Ástralíu eftir sólahrings stopp í Lon-og-don. Hann fékk rétt að leggja sig í smá tíma þangað til að hann var dreginn í vínsmökkunarferð til Hunter Valley. Rúntuðum um á fjólubláum míníbus sem var fullur af þunnum enskunemum og ofvirkum enskukennurum, sem urðu ofvirkari og ofvirkari með hverju vínglasi. Hittum Skippí og borðuðum “woodfire pizza” sem var grilluð af alvöru Áströlskum grillmeistara.
Nú vitum við semsagt muninn á Merlot, Siraz, Capernet rauðvínum. Semillon, Cab Sav, Chardonnay hvítvínum auk þess að vera meistarar í sætu Shiraz og desertvínum...
Tókum svo fjallabaksleið austari til baka til Sydney, villtum aðeins í frumskógarvegakerfi Sydney og brunuðum svo til Wollongong. Auður rak okkur svo á surfnámskeið klukkan tíu um morguninn á laugardagsmorgni. Fengum 30sek. kennslu á ströndinni og svo var okkur bara skellt í öldurnar. Eftir um tvær klukkustundir, fjóra kollhnísa, eitt bretti í hausinn og svona 30 tilraunir tókst okkur báðum að standa upp og brunuðum um öldurnar eins og við hefðum aldrei gert annað. Skoðuðum aðeins hið stórkostlega næturlíf Wollongong borgar um helgina.
Á mánudeginum tóku við æfingar ala raggifri í “The Uni Pool” (2k). Tókum svo aftur bílaleigu bíl og skoðuðum strandlengjuna hér og prófuðum nýja strönd á body brettunum okkar Aðalsteins. Kíktum á útsýnispalla hér fyrir ofan þorpið, fórum í regnskóg og kíktum til Kiama. Grilluðum kengúru að hætti Ástrala. Skokkuðum eftir strandlengjunni og tókum eina æfingu í sjólauginni hér við ströndinni (17°C). Brrrr...
Svo var komið að því að skoða aðeins Sydney. Ég þurfti að fara á sundþjálfaranámskeið og Aðalsteinn og Auður sáu þá um að láta Hörð ganga um alla Sydney borg og skoða það merkilegasta. Aðalsteinn og Auður fóru svo til baka til Wollongong meðan við Hröður fórum í sögulega skoðunarferð um pöbbana í Rocks og fengum okkur einn eða tvo bjóra, borðuðum Emú og Krókódíla pizzu. Tókum svo létta æfingu í Ólympíulauginni og kíktum á Bondi Beach.
Ef einhver vill koma í æfingabúðir í Ástralíu þá hef ég ennþá nokkur pláss laus...:-).
“Welcome to the land down under”